Vinnu og námsferðir

Á haustönn er farið í heilsdags berjaferð að Rauðamelsölkeldu á Mýrum. Tínd eru krækiber, bláber og hrútaber.
Nemendum eru sýnd fjallagrös sem þeir læra síðar um og einnig er þeim sagt frá einiberjum og notkun þeirra.

Á hverri önn er farið í heilsdags ferðalag um Suðurland. Farið er til Þingvalla og saga Þingvalla sögð. Þaðan er farið að hellunum á Lyngdalsheiði og þeir skoðaðir,
þaðan er haldið á Laugarvatn og komið að vígðu lauginni sem tengist sögu Skálholts, þangað sem haldið er næst. Á Skálholti tekur séra Egill Hallgrímsson
ávallt á móti nemendum og segir sögu Skálholts. Þaðan er farið að Sólheimum og nemendum kynnt það merka starf sem þar fer fram.

Á hverri önn er farin bæjarferð og nemendum kynntur gamli bærinn og saga húsa, listaverka og merkra staða í miðbænum.
Farið er með nemendur í Ístex ullarverksmiðjuna á Álafossi þar sem nemendum er sýnt ferlið við vinnslu íslensku ullarinnar.

Ber sem tínd eru í berjaferðinni eru sultuð og saft búin til. Einnig eru ber fryst fyrir nemendur á vorönn.
Um sumarið sér matreiðslukennari og skólameistari um að taka upp og frysta rabarbara og rifsber fyrir skólann sem nemendur læra síðan að nýta.