Prjón

Markmiðið með kennslu í prjóni er að nemendur öðlist færni til sjálfstæðra vinnubragða og kunnáttu til framtíðar.

Kennd eru undirstöðuatriði í prjóni og hekli og læra nemendur að prjóna sokka, vettlinga, lopapeysu, gataprjón o.fl.

Prjón – PRJ 1034
Undanfari: Enginn.

2 einingar auk þess 1 eining fyrir heimavinnu.

Námsefni: Prjónabækur Ístex og Prjónabiblían.
Ýmsar aðrar prjónabækur og ljósrit.

Áfangalýsing
Nemendur læra að beita réttum grunnaðferðum við að prjóna og þjálfist í að lesa úr og skilja einfaldar og flóknar prjónauppskriftir. Kenndar eru helstu aðferðir í prjóni eins og slétt og brugðið, gataprjón, kaðlaprjón og garðaprjón. Nemendur læra fjölbreyttar úrtökuaðferðir og kennt að sjá út stærðarhlutföll eftir því hvaða garn og prjónastærðir eru notaðar. Kenndur er frágangur á flíkum og öðru því sem nemendur prjóna.
Nemendur fá möppu þar sem þeir safna saman öllum uppskriftum og upplýsingum sem þeir fá frá kennara.

Kennslumarkmið
Markmið námsins er að nemendur öðlist færni í að prjóna flíkur og aðra nytjahluti sér til gagns og ánægju sem og að frumkvæði og sköpunargleði nemenda aukist.

Kennsluverkefni
Eftirfarandi verkefni eru unnin í áfanganum:

  • Prjónaðir lopasokkar, slétt og brugðið stroff, hæll prjónaður og úrtaka.
  • Prjónuð barnahúfa með gataprjóni.
  • Lopapeysa að eigin vali sem nemandinn prjónar á sjálfan sig.
  • Vettlingar þar sem nemandi teiknar munstur sjálfur og prjónar eftir.
  • Nemendum gefst kostur á að gera ýmis aukastykki í prjóni.

Mat einstakra verkefna

  • 20% Sokkar og lopahúfa með munstri
  • 15% Barnahúfa gataprjón
  • 40% Lopapeysa
  • 15%° Vettlingar
  • 10% Mappa og mæting

Námsmat
Áfanginn eru próflaus. Nemendur skila öllum verkefnum frágengnum og þvegnum til prófmats og einkunnargjafar. Nemendur þurfa að skila öllum skyldustykkjum til að standast áfangann ásamt verkefnamöppu. Metin eru vinnubrögð, vandvirkni og ástundun.