Skipulagsskrá fyrir Hússtjórnarskólann í Reykjavík.

Samþykktir – Skipulagsskrá
fyrir Hússtjórnarskólann í Reykjavík ses
HSSR

1. grein

Félagið er sjálfseignarstofnun og er nafn þess Hússtjórnarskólinn í Reykjavík ses, HSSR, kt. 640169-1099.

2. grein

Heimilisfang er Sólvallagata 12, 101 Reykjavík.

3. grein

Tilgangur skólans og markmið er að bjóða upp á starfsnám sem samrýmist þörfum atvinnulífs, heimila, skólakerfis og þörfum nemenda samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Stuðla að eflingu menntunar með rekstri skólans þar sem kenndir eru áfangar samkvæmt námsskrá skólans sem lögð er fram árlega til Mennta- og menningamálaráðuneytisins, ásamt skýrslu síðasta starfsárs og á annan þann hátt sem stjórn skólans kann að ákveða.

4. grein

Bandalag kvenna í Reykjavík, BKR, stofnaði Húsmæðraskóla Reykjavíkur árið 1941 og heitir nú Hússtjórnarskólinn í Reykjavík.
Það sama ár tóku ríki og borg við rekstri skólans. Árið 1998 var starfsemin færð yfir í nýtt rekstrarform þ.e. sjálfseignarstofnun sbr. lög nr. 33/1999 um sjálfseignarstofnanir. BKR gegnir nú hlutverki stuðningsaðila sbr. 7. grein.

5. grein

Stofnfé skólans er kr. 14.851.733 sem er eigið fé HSSR þann 31.12.2013 sem að stofni til er m.a. í formi málverkasafns í eigu skólans. Þessi málverk hafa bæði verið gefin skólanum eða keypt fyrir gjafafé frá eldri nemendum. Kaupnótur og gjafabréf eru í vörslu skólans og afrit hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Málverk þessi voru tekin inn í efnahagsreikning HSSR árið 2013 á fjárhæð sem byggð er á verðmati gerðu af Gallerí Fold í júlí 2013.
Skólinn ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er skólinn kann að eignast síðar.

6. grein

Tekjur skólans skulu vera af skólagjöldum og námsskeiðahaldi samkvæmt þjónustusamningi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Aðrar tekjur: Húsaleiga, vaxtatekjur, styrkir og gjafir eða önnur framlög er skólanum kunna að berast.

7. grein

Stjórn skólans skal skipuð og endurnýjuð á eftirfarandi hátt:
Skólastjórn, í umboði BKR, og formaður BKR ráða skólameistara. Í stjórn sitja 5 konur sem kjörnar eru á ársþingi BKR til þriggja ára í senn. Endurkjósa má einu sinni. Árlega skulu 1 – 2 konur ganga úr stjórninni. Á fyrsta fundi eftir ársþing skiptir skólastjórn með sér verkum eftir þörfum samkvæmt 7. gr. laga BKR um fastanefndir.
Skólastjórn og skólameistari halda fundi eigi sjaldnar en fimm sinnum á starfsári. Fulltrúar í skólastjórn hafa tillögu- og atkvæðisrétt á fundum. Tveir fundir skulu haldnir fyrir áramót og þrír fundir eftir áramót, oftar ef þurfa þykir. Formanni BKR er frjáls seta á fundum skólastjórnar og skólameistara. Ritari sendir skólastjórn og formanni BKR fundagerðir hvers fundar. Við val stjórnarmanna skal einfaldur meirihluti ráða. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda skólann.
Stjórn skólans getur veitt prókúruumboð fyrir skólann. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Meirihluti atkvæða ræður.

8. grein

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfunda, sama rétt á skólameistari. Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

9. grein

Stjórn skólans ræður skólameistara og ákveður starfskjör hans. Skólameistari hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri skólans og ráðningu starfsfólks. Hann kemur fram fyrir hönd skólans í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Skólameistari situr stjórnarfundi þótt hann sé ekki stjórnarmaður. Skólameistara ber að veita skólastjórn og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur skólans sem þeir kunna að óska eftir og veita ber samkvæmt lögum.

10. grein

Stjórn skólans skal velja löggiltan endurskoðanda til að vinna bókhald og endurskoða reikninga skólans fyrir hvert starfsár. Ársreikningar eru sendir til Ríkisendurskoðunar og Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

11. grein

Starfsár og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember. Endurskoðandi skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt hann fyrir stjórn eigi síðar en 30. ágúst ár hvert.

12. grein

Hagnaði sem verður af starfsemi skólans skal varið til þeirra verkefna er greinir frá í 3. gr. samþykktanna. Þó er stjórn skólans heimilt að leggja sanngjarna fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu og áframhaldandi rekstur skólans.
Hugsanlegt tap af starfsemi skólans verður greitt úr sjóðum félagsins eða fært á næsta reikningsár.

13. grein

Heimilt er að breyta samþykktum skólans og þarf til þess samþykki allra stjórnarmanna á tveimur fundum sem haldnir skulu með minnst einnar viku millibili. Til að auka skuldbindingar þarf þó samþykki þeirra allra sem að rekstri skólans koma.

14. grein

Með tillögum um slit og skipti á skólanum skal fara með eins og um breytingar á samþykktum þessum. Komi til þess að skólinn verði lagður niður skal eignum hans ráðstafað í samræmi við 5. 7. 8. og 9. grein samkomulags frá 30. nóvember 1977.

15. grein

Þar sem ákvæði ofangreindra samþykkta mæla ekki fyrir um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga nr. 33/1999 og eftir atvikum öðrum viðeigandi lagaákvæðum.

Reykjavík, 11.04.2018.

___________________________________________________________
Álfheiður Árnadóttir 0208494959   Dynskógar 7

___________________________________________________________
Ástríður H. Thoroddsen 1501564839   Asparlundur 10

___________________________________________________________
Bryndís Óskarsdóttir 1107414649   Eskihlíð 18

___________________________________________________________
Dagmar Elín Sigurðardóttir 0907585439 Eskiholt 3

___________________________________________________________
Sigurborg Bragadóttir 2203344579   Kleppsvegur 120