Saga skólans

Hússtjórnarskólinn í Reykjavík er með aðsetur í einu fallegasta húsi borgarinnar við Sólvallagötu 12, 101 Reykjavík, sem var byggt árið 1921 af Jónatan Þorsteinssyni.
Skólinn hefur starfað óslitið frá 7. febrúar 1942, ýmist sem heilsársskóli eða í annarri mynd. Námstíminn var níu mánuðir og var heimavist rekin á tveimur stöðum í nágrenni skólans. Nemendur voru 48 talsins þetta fyrsta skólaár.

Árið 1975 breyttist Húsmæðraskóli Reykjavíkur í Hússtjórnarskólann í Reykjavík og var þá gerður að ríkisskóla. Námið var stytt í eina önn, en dag- og kvöldnámskeið haldin í stað fyrri annar.

Árið 1998 var skólinn gerður að sjálfseignarstofnun sem rekin er með framlagi frá ríkissjóði.
Árið 1940 var kosin nefnd af Bandalagi kvenna í Reykjavík til að hafa forystu um stofnun húsmæðraskóla í Reykjavík og árið 1941 voru sett lög um stofnun húsmæðraskóla í borginni.

Bandalag kvenna í Reykjavík stóð fyrir fjársöfnun til kaupa á húsnæði fyrir skólann og ýmsir aðilar og félagasamtök gáfu húsgögn og styrktu skólann með fé til kaupa á öðrum nauðsynjum.

Ef óskað er frekari upplýsinga um sögu skólans er vísað til Sögu Húsmæðraskóla Reykjavíkur.