Þvottur og ræsting

Titill: Þvottur og ræsting fyrir hússtjórnarfræðslu
Viðfangsefni: Þrif, persónuleg þrif, þvottaaðferðir og meðferð á allslags líni og fatnaði, notkun umhverfisvænna efna og hreinlætisáætlanir
Þrep: 1
Einingafjöldi: 2
Undanfari: Enginn

Áfangalýsing:
Áfanginn er í senn verklegur og bóklegur þar sem verklegi þátturinn er stærri. Nemandi lærir að vinna eftir skriflegum áætlunum og öðlast þar verkfærni, sjálfstæði og gagnrýna skoðun. Í áfanganum er lögð áhersla á öll almenn þrif hvort sem er í heimahúsum eða á vinnustað. Farið er inn á örverufræði og nemendum gerð grein fyrir mikilvægi þess að hreinlæti skipti höfuðmáli í meðhöndlun matvæla, bæði hvað varðar umhverfið og persónulegt hreinlæti. Áhersla er lögð á notkun vistvænna hreinsiefna sem nemendur vinna með. Nemendur öðlast færni og þekkingu í meðferð hreinsiefna á heimilum og á vinnustað hvort sem unnið er með algeng ræstiefni eða sótthreinsunarefni og virkni þeirra með tilliti til umhverfisverndar. Einnig er kenndur þvottur, meðferð á fatnaði og heimilisþvotti, frágangi, strauning, pressun, ásamt því að lesa úr þvottamerkingum. Nemendur öðlast leikni og getu til að sjá um sinn eigin fatnað og lín.

Fjallað er um meðferð húsgagna , ræstingu og meðhöndlun hreinsi- og viðhaldsefna til að varðveita gæði þeirra og eiginleika. Einnig fá þeir kennslu í þrifum á heimilistækjum og meðferð þeirra, mikilvægi þess er varðar örverugróður sem þar getur leynst. Fjallað er um Gámeskerfið varðandi ræstingu, viðhald, hreinlæti og áætlanagerð. Nemendur eiga að hafa öðlast þekkingu og leikni til að fylgja hreinlætisáætlunum og skilji mikilvægi þeirra.

Námsmat:
Leiðsagnarmat, símat og sjálfsmat, verklegt próf. Námsmat er í höndum kennara og prófdómara í viðkomandi áfanga. Kennari afhendir nemendum sundurliðaða kennsluáætlun í upphafi annar og framfylgir henni samkvæmt reglum um námsmat og próf skólanámsskrá skólans.