Fatasaumur I

Viðfangsefni: Saumavélar, spor, sniðabreytingar, saumtækni, áhöld og tæki
Þrep: 1
Einingafjöldi: 2
Undanfari: Enginn

Áfangalýsing:
Í áfanganum læra nemendur grunnatriði í fatasaum og almennum vélsaum ásamt því að teikna upp snið. Nemendur leggja snið á efni, merkja fyrir saumförum og klippa eftir sniði. Nemendur vinna með tilbúin snið og sauma einfaldar og meðalflóknar flíkur þar sem lögð er áhersla á saumatækni af ýmsum gerðum. Nemendur læra algengustu aðferðir við fatasaum og annan vélsaum, s.s. rykkingar, falda, hnappagöt, ísetningu rennilása, fóður í berustykki, og föll ásamt þeim fagorðum sem notuð eru við saumaskap. Nemendur kynnast mismunandi efnum, fastofnum og teygjanlegum ásamt mismunandi tvinna. Nemendur læra að þekkja muninn á náttúrulegum efnum og gerviefnum og geti tilgreint: kosti þeirra og galla, þvottameðferð, umhirðu og ástæðu fyrir blöndun trefjanna. Nemendur læra heiti á helstu fataefnum og geti lýst þeim lítillega. Nemendur læra á saumavél, overlockvélar og fylgihluti þeirra s.s. mismunandi nálategundir og saumfætur. Lögð er áhersla á að nemendur temji sér sjálfstæð, vönduð og skiplögð vinnubrögð og séu í stakk búnir til að vinna sjálfstætt eftir skriflegum leiðbeiningum og teikningum. Heimavinna er metin til eininga og einkunnar.

Fatasaumur 2

Viðfangsefni: Fatasaumur, máltökur og sniðabreytingar
Þrep: 2
Einingafjöldi: 3
Undanfari: FATA 1

Áfangalýsing:
Í fatasaum II er byggt ofan á þá þekkingu sem nemandi fékk í fatasaum I. Nemendur læra að taka mál og vinna snið upp úr sniðablöðum og vinna samkvæmt þeim. Farið er í flóknari fatasaum og tækniatriði. Nemendum eru kennd vönduð vinnubrögð og einkenni vandaðrar flíkur með góðum frágangi. Nemendur læra að nota uppskriftir lesa þær, taka upp snið, útfæra þau eftir eigin hugmyndum og laga eða breyta eftir þeim. Unnið er með flóknari snið og verkefni. Nemendur gera flíkur með mismunandi saumatækni ásamt því að sýna vönduð vinnubrögð og sjálfstæði.
Nemendur fá leiðsögn í fataviðgerðum og smávægilegum breytingum. Nemendur læra hvað tæki, áhöld og fatahlutar heita og geti nýtt sér bækur, blöð og veraldarvefinn til að afla sér upplýsinga og uppskrifta.

Námsmat:
Leiðsagnar og símat ásamt mati prófdómara. Námsmat er í höndum kennara og prófdómara í viðkomandi áfanga. Kennari afhendir nemendum sundurliðaða kennsluáætlun í upphafi annar og framfylgir henni samkvæmt reglum um námsmat í skólanámsskrá skólans.