Inntaka nemanda
Skólameistari er ábyrgur fyrir inntöku nemenda í skólann. Inntökuskilyrði fyrir skólagöngu er grunnskólapróf en með umsókn skal fylgja afrit af prófskírteini nemanda því til staðfestingar.
Eldri nemendur hafa forgang inn í skólann og er einnig farið eftir því hvenær umsóknir berast.
Nemandi sendir inn umsókn á þar til gerðu eyðublaði eða rafrænt beint til skólans. Nemandi undir 18 ára aldri þarf að hafa undirskrift foreldra eða forráðamanns á umsókninni. Fyrir þá nemendur getur Skólameistari þá veitt foreldrum upplýsingar um framvindum náms og leitað aðstoðar ef þess þarf t.d. við brot á skólareglum, veikindi og annað sem upp getur komið.
Með greiðslu staðfestingargjalds staðfestir nemandi að hann ætli sér að stunda nám við skólann og um leið að hlíta reglum skólans.
Ef nemandi er fatlaður eða á við veikindi að stríða þarf hann að láta vita og láta skólann fá allar þær upplýsingar sem skólinn krefst til að meta hvort skólinn geti þjónað nemandanum eins og þörf er á. Því miður hefur skólinn ekki aðgengi fyrir hreyfihamlað fólk.
Komið er til móts við nemendur með sérþarfir eins og t.d. lesblindu. Nemendur með mikinn prófkvíða og lesblindu gefst kostur á að taka munnleg próf í stað skriflegra.
Kostnaður við skólavist.
Kostnaður við nám/önn við Hússtjórnarskólann í Reykjavík er eftirfarandi:
65.000 kr. innritunar/staðfestingargjald. ( Staðfestingargjald er ekki endgreitt, þó nemandi ákveði að hætta við skólavist. )
540.000 kr. fæðis- efnis og bókakostnaður. ( Innritunargjald er ekki innifalið )
240.000 kr. fyrir heimavist. Aðgengi að kvöld og helgarmat.
Athugið að hægt er að sækja um ýmsa styrki til að greiða niður náms- og heimavistargjöld, líkt og námsstyrki hjá verkalýðsfélagi sem viðkomandi hefur greitt félagsgjald í.
Allt efni er innifalið í skólagjöldum: Efni í fatasum, útsaum, vefnað, prjón, hekl, ásamt öllum stærðum og lengdum af hringprjónum og fimmprjónum ásamt heklunálum í öllum stærðum einnig veski undir prjóna og heklunálar. Sníðaskæri, útsaumsskæri, pappírsskæri (til að klippa út snið) málband, títuprjóna og segla. Matreiðsluhefti, Saumabók eftir Ásdísi Jóelsdóttir, Vörufræði, Lífsþróttur (næringarfræði) Prjónabiblían,útsaumsbók ásamt ótal ljósritum og möppur. Nemendur fá einnig töskur merktar skólanum fyrir prjónadót og útsaum. Það sem nemendur kaupa sjálfir er efni í kjól (eina flík) og lopa í lopapeysu. Allt sem upp er talið fá nemendur til eignar. Matur er innifalin ásamt hreinlætisvörum.