Saga Sólvallagötu 12.

Sólvallagata 12.
Í bókinni Saga Húsmæðraskóla Reykjavíkur í 50 ár, höf. Eyrún Ingadóttir kemur eftirfarandi fram:  „Sólvallagata 12 er óvenju stórt og myndarlegt íbúðarhús sem Jónatan Þorsteinsson kaupmaður byggði árið 1921.  Það var teiknað af Einari Erlendssyni byggingameistara, hinum sama og teiknað hafði Kvennaskólann á Blönduósi.  Stigagangur hússins er marmaramálaður frá gólfi til lofts, veggirnir felldir í reiti með strikum og skyggingum.  Í flötum yfir dyrum erum myndir úr íslenskri náttúru en Einar Jónsson málari frá Fossá hafði málað húsið rétt fyrir andlát sitt.  Þó vel hafi verið vandað til hússins í upphafi var það í mikilli niðurníðslu þegar framkvæmdanefndin festi kaup á því og þarfnaðist það gagngerðra endurbóta.  Fyrst í stað hugðist nefndin reyna að komast hjá miklum viðgerðum en við nánari athugun kom í ljós að þær voru óhjákvæmlegar.  Ákveðið var að gera húsið eins vel úr garði og kostur væri.
Halldór Jónsson byggingameistari var ráðinn ráðunautur nefndarinnar um allar breytingar á húsinu og búnaði innanhúss.  Um framkvæmd verksins sá Kornelíus Sigmundsson múrarameistari.
Í kjallara var útbúið þvottahús, straustofa, miðstöðvarklefi, aðalmatargeymsla skólans og snyrtiherbergi fyrir dagdeildina, en dagdeildin var fyrir þá nemendur sem ekki voru í heimavist.  Þar voru líka gerðar kennslustofur fyrir handavinnu og vefnað.  Á fyrstu hæð var eldhús, skrifstofa, setustofa fyrir heimavistarnema og hátíðarsalur skólans, sem jafnframt var kennslustofa og borðstofa dagdeildar.  Á annarri hæð, sem ætluð var heimavistarnemum, var eldhús og borðstofa sem jafnframt var kennslustofa og tvö herbergi forstöðukonu.  Efstu hæðinni var breytt í svefnherbergi fyrir heimavistarnema og tvær kennslukonur.  Parket var lagt á gólf á báðum hæðum og í kjallara, hæðirnar málaðar og eldhúsin útbúin eins vel  og kostur var.  Gert var við forstofu, þak málað og endurbætt, einnig var gert við alla glugga.  Allar lagnir í húsinu voru endurnýjaðar.  Stofnkostnaður skólans, nam alls kr. 519.284,20.  Safnast höfðu kr. 45.092,65 og greiddi bæjarsjóður mismuninn á þessum upphæðum, alls kr. 474.191,55.  Þegar lög um húsmæðraskóla í kaupstöðum voru samþykkt á Alþingi í maílok 1941, endurkrafði bæjarsjóður ríkið um ¾ hluta kostnaðarins“.
Á bls 37 í sömu bók kemur eftirfarandi fram:
„Loks rann upp sá dagur að hægt var að taka á móti fyrstu námsmeyjunum.  Ákveðið hafði verið að setja skólann þann 31. janúar 1942, klukkan 2 síðdegis, en á síðustu stundu var skólasetningunni frestað um eina viku þar sem skólahúsið var enn ekki tilbúið.  Stóri dagurinn rann því upp þann 7. febrúar 1942“.
Heimild:  Saga Húsmæðraskóla Reykjavíkur í 50 ár.
Höf:  Eyrún Ingadóttir, útg. 1992.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *